fimmtudagur, 28. ágúst 2014

Borðstofustólar!

Erfiðasta verkefnið mitt hingað til!

Mig vantaði fallega stóla við nýja borðstofuborðið, svo gömlu fengu að fjúka (seldir á bland) og ég fann fjóra klassíska tekkstóla á "Antík-sölusíðu" á Facebook.

Fyrir
Stólarnir voru grófir, vel lakkaðir og með gamaldags fallegu rósaáklæði.


Áferðin fyrir
Ég varð að taka einn í einu og pússa þá úti á svölum. Það var sjúklega mikil vinna í yfir 20 stiga hita í sumarfríinu mínu :)


Pússaður
Svenni mágur lánaði mér lítinn juðara sem er algjört þarfaþing í svona verkefni. Ég byrjaði að pússa þá með sandpappír nr. 80 sem er frekar grófur. 

Lifesaver
Þetta tók þónokkra daga...


Búið að fara eina umferð yfir alla
Ég reyndi að pússa eins vel ofan í viðinn og ég gat (þegar ég var komin undir lakkið) svo litamismunurinn yrði ekki of mikill. Gott er að þurrka sagið af með þurrum klút. Næst bar ég tekk- og palisander viðarolíu á - leyfði henni að þorna - og pússaði þá yfir með sandpappír nr. 180. Ég fór svo aðra umferð með viðarolíunni - leyfði henni að þorna - og pússaði þá með vatns-sandpappír nr. 600. Þurrka með klút á milli, þá fyllir sagið vel upp í allar rispur. Eftir það verður viðurinn rennisléttur og þá bar ég auðvitað majónesið góða á!


Sessur fyrir - heftin plokkuð upp með skrúfjárni og töng
Þá var það bólstrun... Ég var mikið búin að spá í hvernig áklæði ég ætti að setja á, fyrir var það rósótt (mjög fallegt) sem passaði bara engan veginn inn heima hjá okkur. Ég ákvað því að setja svart leðurlíki. Sæja tengdamamma og þúsundþjalasmiður leiddi mig í gegnum fyrstu tvær sessurnar og kenndi mér handtökin (og lánaði mér heftibyssu og hefti). Hún átti meira að segja ekta svart skinn frá Gestastofu sútarans á Sauðárkróki sem dugði á tvær sessur.


Ein komin
Passa þarf bara að strekkja vel og vanda sig í hornunum, þá er þetta lítið mál og bara nokkuð skemmtilegt.


Voila!
Tilbúinn!
Ég varð að redda mér áklæði og hina tvo og endaði á að kaupa leðurlíki hjá Godda í Kópavogi til að byrja með (skipti kannski í ekta seinna). Það sem ég keypti var frekar þunnt, mjúkt, teygjanlegt og meðfærilegt.

Leðurlíkið


Aðeins fallegra :)
Þetta hafðist!


Engin ummæli:

Skrifa ummæli