fimmtudagur, 28. ágúst 2014

Kommóða

Þegar ég skrapp á Akureyri um daginn þræddi ég auðvitað alla nytjamarkaði í bænum í leit að gersemum. Frænkur mínar voru búnar að segja mér frá nytjagámi á gámasvæðinu í bænum og ég varð auðvitað að skoða hann - og fann þá gamla tekk kommóðu! Hún var ansi vel lifuð og illa farin (enda ástæða fyrir því að hún var komin á haugana!). Ég opnaði efstu skúffuna og þar leyndust fætur á hana.


Fyrir
Hún var spónlögð eins og mörg húsgögn í þessum stíl, en það gerir ekkert til. Það þarf bara að passa að pússa ekki mjög djúpt eða fara ofan í spóninn á köntunum.


Búið að pússa
Hún fékk nánast sömu meðferð og stólarnir: Pússuð með nr. 80 - tekkolía - pússuð með nr. 180 - majónes og svo pússuð aðeins eftirá með nr. 600.


Tilbúin!
Tókst mjög vel og ég er súperánægð með árangurinn af haugamatnum mínum :)

Tekur sig vel út
Nú þarf ég bara að fara að vinna í þessum spegli... eitt leiðir að öðru :)

Borðstofustólar!

Erfiðasta verkefnið mitt hingað til!

Mig vantaði fallega stóla við nýja borðstofuborðið, svo gömlu fengu að fjúka (seldir á bland) og ég fann fjóra klassíska tekkstóla á "Antík-sölusíðu" á Facebook.

Fyrir
Stólarnir voru grófir, vel lakkaðir og með gamaldags fallegu rósaáklæði.


Áferðin fyrir
Ég varð að taka einn í einu og pússa þá úti á svölum. Það var sjúklega mikil vinna í yfir 20 stiga hita í sumarfríinu mínu :)


Pússaður
Svenni mágur lánaði mér lítinn juðara sem er algjört þarfaþing í svona verkefni. Ég byrjaði að pússa þá með sandpappír nr. 80 sem er frekar grófur. 

Lifesaver
Þetta tók þónokkra daga...


Búið að fara eina umferð yfir alla
Ég reyndi að pússa eins vel ofan í viðinn og ég gat (þegar ég var komin undir lakkið) svo litamismunurinn yrði ekki of mikill. Gott er að þurrka sagið af með þurrum klút. Næst bar ég tekk- og palisander viðarolíu á - leyfði henni að þorna - og pússaði þá yfir með sandpappír nr. 180. Ég fór svo aðra umferð með viðarolíunni - leyfði henni að þorna - og pússaði þá með vatns-sandpappír nr. 600. Þurrka með klút á milli, þá fyllir sagið vel upp í allar rispur. Eftir það verður viðurinn rennisléttur og þá bar ég auðvitað majónesið góða á!


Sessur fyrir - heftin plokkuð upp með skrúfjárni og töng
Þá var það bólstrun... Ég var mikið búin að spá í hvernig áklæði ég ætti að setja á, fyrir var það rósótt (mjög fallegt) sem passaði bara engan veginn inn heima hjá okkur. Ég ákvað því að setja svart leðurlíki. Sæja tengdamamma og þúsundþjalasmiður leiddi mig í gegnum fyrstu tvær sessurnar og kenndi mér handtökin (og lánaði mér heftibyssu og hefti). Hún átti meira að segja ekta svart skinn frá Gestastofu sútarans á Sauðárkróki sem dugði á tvær sessur.


Ein komin
Passa þarf bara að strekkja vel og vanda sig í hornunum, þá er þetta lítið mál og bara nokkuð skemmtilegt.


Voila!
Tilbúinn!
Ég varð að redda mér áklæði og hina tvo og endaði á að kaupa leðurlíki hjá Godda í Kópavogi til að byrja með (skipti kannski í ekta seinna). Það sem ég keypti var frekar þunnt, mjúkt, teygjanlegt og meðfærilegt.

Leðurlíkið


Aðeins fallegra :)
Þetta hafðist!


föstudagur, 22. ágúst 2014

Stofuborð

Ég fann gamalt borð á bland í vor sem stóð til að breyta!

Borð

Það var með mjög fallegum blómaflísum sem voru því miður margar brotnar...
Það var of hátt til að vera stofuborð svo Atli vinur okkar og ofursmiður stytti það í rétta hæð fyrst. Með því fauk hins vegar flottu málmendarnir...
 
  
Búin að mölva og djöflast með hamri og sporjárni
Pússa og þrífa...
Ég bar á þetta borð tekk- og palisander viðarolíu til að dekkja aðeins.

Búið að bera á
Við þræddum margar búðir til að finna hinar réttu flísar, en fundum ekkert sem passaði eða sem okkur langaði í (nema maður er til í að borga 20.000 m2....). Enduðum því á möttum hvítum flísum en mig langaði í koparflísar.
 
...svo Frikki græjaði að sjálfsögðu koparflísar fyrir konuna :)
Notuðum hamrað málmsprey sem fæst í flestum byggingarvöruverslunum.

Kom vel út!
Ég setti svo svartan gluggaþéttikant þar sem flísarnar pössuðu ekki alveg fullkomlega. Það varð a.m.k. bráðabirgðalausn.

Eins og nýtt!

Borðstofuborð

Keypti tekk borð á bland á slikk til að gera fínt :) 

Fékk aðstöðu í bílskúrnum hjá Svenna og Ellen.

Allt skrúfað í sundur
Framlengingarplöturnar voru pússaðar með sandpappír ca 180, það fer eftir ástandi á viðnum hversu gróft er best að byrja með. Þetta borð var í ágætis standi. Svo er hægt að vinna sig upp með sandpappírinn og þurrka með þurri tusku á milli. Ég fór yfir með vatnspappír (600) í lokin.
 
Búið að pússa
Þurrka af með tusku og svo borið á undaefnið majónes! Þegar majóið er orðið þurrt pússaði ég yfir með stálull sem gerir viðinn alveg rennisléttann.

Slétt og fínt!
Sama gert með borðplötuna sjálfa, pússað og borið á majó - stálullin í lokin.

Efri platan
Búið að bera á
Það sama var auðvitað gert við fæturna.

Tilbúið!
Svona sómir það sér vel í litlu "borðstofunni" okkar ;) 


Þarna átti ég þó eftir að fara í stólaleiðangur...

þriðjudagur, 19. ágúst 2014

Gamalt tekk útvarp

Fyrir nokkrum árum áskotnaðist pabba þetta gamla tekk útvarp með plötuspilara úr dánarbúi Sigurjóns bróðir hans afa. Það er þýskt af gerðinni Loewe Opta, flutt inn til landsins í kringum 1960.

Gripurinn
Það var haugadrullugt...
...og ansi illa farið
Byrjað að þrífa og pússa. Ég notaði juðara en man ekki grófleikann (120-180).
 

Komið út vegna rykmengunar
Búið að juða og juða og pússa
Ég var búin að fá ýmis ráð um hvað væri best að bera á... valið stóð á milli tekkolíu og majónes... Majó kom betur út svo það varð fyrir valinu :)

Majó majó
Þegar majónesið var orðið þurrt pússaði ég yfir með stálull. Stálullin fæst í byggingarvöruverslunum (án sápu!)

Búið að bera á
Voila! Nýi sjónvarpsskenkurinn okkar :)

 













Opinn - og já útvarpið virkar!